top of page
Search

Hvað er lífefld ræktun?

  • hoskuldurhauksson
  • Dec 8, 2025
  • 3 min read

Þegar ég er spurður hver munurinn sé á lífrænni og lífefldri (biodynamic) vínrækt, þá hef ég – og flestir kollegar mínir – tilhneigingu til að svara með því að telja upp hvað við gerum öðruvísi. Oft er útskýringin tæknileg: við notum örlítið minna kopar á vínekrunum og við notum hornáburð (horn manure BD500) og hornkísil (horn silica BD501). Fyrir marga er það nægilegt svar og samtalið endar þar.


En spurningin af hverju við gerum það er miklu áhugaverðari er spurningin um hvað við gerum.


Magn þessara efna sem við berum út er svo lítið að ljóst er að þetta snýst ekki um efnafræði. Við notum til dæmis eingöngu fimm grömm af hornkísli á hektara. Í samanburði við lífmassa og jarðvegsmassa heillar vínekrar er þetta augljóslega homeopathískt magn. Og samt sem áður – fyrir okkur sem vinna með landinu – er munurinn óumdeilanlegur.


Markmið þessara efna er að styrkja og samræma það sem Rudolf Steiner kallaði lífhrífandi, mótandi krafta vínekrunnar – hina svokölluðu eterísku krafta. Þetta eru lífgjafandi kraftar sem stýra vexti, seiglu og lífsorku. Fyrir þá sem þekkja hefðbundna kínverska læknisfræði eða Ayurveda er þetta alls ekki framandi hugmynd – eterískir kraftar samsvara beint Qi og Prana, hinum fínlegu lífsorkum sem þessar hefðir lýsa.


Og rétt eins og Qi og Prana hafa eterísku kraftarnir tvo póla.

Í kínverskri læknisfræði eru það Yin (jarðneskt, nærandi, inn á við, rakt) og Yang (bjart, hlýtt, út á við, þroskandi).

Í Ayurveda eru samsvarandi hugtök Kapha (stöðugleiki, jörð-vatn) og Pitta (eldur-ljós, umbreyting).


Hornáburður (500) styrkir Yin/Kapha hlið vínviðarins – rótarmyndun, raka, jarðtengingu og dýpri tengsl plöntunnar við jarðvegslífið.

Hornkísill (501) styrkir Yang/Pitta hliðina – skýrleika, upprisu, þroska og stefnu plöntunnar í átt að ljósi og tjáningu.


Hugmyndin er einföld: ef hægt er að styrkja og stilla saman þessa tvo póla lífsorkunnar í vínekrunni verður vínviðurinn seigari, vínið verður líflegra og – kannski áhugaverðast – neytandinn finnur einnig fyrir fínlegum orkulegum áhrifum. Í lífefldri ræktun er lífsorka jarðar ekki bara landbúnaðarmál; hún er hluti af samfellu sem nær einnig til þeirra sem neyta afurða okkar.


Vissulega er staðan sú, að nútímavísindi hafa enn ekki staðfest tilvist Qi, Prana eða eterískra krafta. Það eru heldur þekkt nein mælitæki til að mæla þá. En skortur á vísindagreinum þýðir ekki að fyrirbærið sé ekki til. Margir finna fyrir þessari orku í sínu daglega lífi:

  • Ef þú hefur farið í nálastungur og fundið straum ferðast upp eða niður líkamann frá stungustaðnum, þá hefur þú upplifað Qi í hreyfingu.

  • Ef þú hefur setið í hugleiðslu og allt í einu fundið líkamann verða rúmgóðan, hlýjan og dularfullt „lifandi“ að innan, þá er það Prana sem sest og þenst út.

  • Ef þú hefur stundað jóga og fundið kitlandi tilfinningu í höndum eða mjúkan titring upp eftir hryggjarsúlunni eftir ákveðnar æfingar eða öndun, þá er það orkulegi líkaminn sem virkjast.

  • Og þeir sem eru næmari finna jafnvel stundum hvar orkulegur líkami annars manns – eða trés – byrjar. Þessi mörk geta verið ótrúlega skýr.


Lífefld ræktun vinnur einmitt með þessa vídd veruleikans.


Hún viðurkennir að landbúnaður er ekki bara vélræn framleiðsla heldur lifandi samband milli jarðar, plantna, hreyfingar himintungla og hinna fínlegu lífsorku sem skapar allt líf. Og hún treystir því að þegar stutt er við vínekrunum á þennan hátt, þá getur vínið tjáð hreinleika og samhljóm sem engin tækni getur líkt eftir.


En vissulega þarf maður ekki að „trúa“ neinu af þessu. Maður getur einfaldlega fundið það á bragðinu. Lífefld ræktun stendur eða fellur ekki með kenningum, heldur með lífsorkunni og því hvernig vínin bragðast. Boðskapur minn er einfaldur: hafðu opinn huga, helltu þér í glas – og leyfðu eigin skynfærum að segja þér hvað þau skynja.


Bestu kveðjur, 

Höskuldur vínbóndi

 
 

Recent Posts

See All

Hauksson Weine GmbH

Haupstrasse 15, 5235 Rüfenach, Switzerland

©2025 by Hauksson Weine GmbH. | Perónuvernd

bottom of page